Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 176 . mál.


193. Frumvarp til

laga

um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði sem orðist svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laganna skal ekki inna af hendi greiðslur til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins vegna útflutnings á tímabilinu 1. janúar 1992 til 31. ágúst 1992.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar verða botnfiskveiðar og vinnsla rekin með um 5,5% tapi á árinu 1992 miðað við starfsskilyrði greinarinnar í september á þessu ári. Er áætlað að þessi halli muni leiða til þess að greiðslustaða þessara greina muni versna um 3 milljarða króna miðað við þann aflasamdrátt sem verður á milli áranna. Í þessu mati Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð nemi um 1 milljarði króna og er þá miðað við markaðsverð sjávarafurða í september 1991.
     Í ljósi þeirra rekstrarerfiðleika, sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir, er með frumvarpi þessu lagt til að inngreiðslur í allar deildir Verðjöfnunarsjóðs falli niður tímabundið eða til upphafs næsta fiskveiðiárs sem hefst 1. september 1992. Þrátt fyrir þessa tímabundnu breytingu mun sjóðurinn starfa áfram þannig að komi til verðlækkana á tímabilinu getur stjórn hans ákveðið útgreiðslur eftir þeim reglum sem um sjóðinn gilda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að sett verði viðaukaákvæði við lögin í því skyni að fresta tímabundið öllum inngreiðslum í sjóðinn. Verði frumvarp þetta að lögum verða því engar inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins vegna þeirra sjávarafurða sem fluttar verða út frá og með janúar 1992 til og með ágúst 1992. Þessi tímabundna breyting á starfsemi sjóðsins hefur engin áhrif á útgreiðslur sjóðsins skapist tilefni vegna lækkunar á markaðsverði.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga


um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.



    
Frumvarpið felur ekki í sér kostnaðarauka fyrir ríkisssjóð þar sem Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins hefur sjálfstæðan fjárhag.